profile picture

Fallhlífastökk

Fyrir tveimur vikum ákvað ég að fara til Spánar og stökkva í fallhlíf. Viku síðar var ég staddur í litlum bæ, nánar tiltekið í Ocaña sem er 30 km suður af Madríd, eftir að hafa flogið til Alicante og keyrt þaðan.

Fyrsta daginn var ég settur í skóla og þurfti ég, ásamt bretanum Chris sem ég kynntist ágætlega, að læra allt sem hægt er að hugsa sér áður en maður stekkur út. Næsta dag hófst ballið. Þá var sett á mig fallhlíf og farið upp í 12.500 fet (c.a. 4 km). Nokkrum sekúndum síðar var ég kominn á 200 km hraða (niður á við :). Kennarinn minn, Andy, og aðstoðarkennarinn, Mike, (sem stökk fyrstu 3 stökkin með okkur) stukku með mér og sáu til þess að allt væri eftir bókinni.

Þvílíkur tryllir! Á meðan maður er að ná lokahraða (um 120 mílna hraði) þá líður manni eins og maður sé að falla. Þessi tilfinning er allsráðandi fyrstu 10 sekúndurnar. Þegar maður hefur náð lokahraða er þetta meira eins og að fljóta og hefur maður um 1 mínútu í loftinu áður en maður þarf að opna fallhlífina.

Námskeiðið byggist upp á 7 stigum og ef maður þarf ekki að endurtaka neitt stig þá eru þetta 7 stökk. Ég henti video-i af stökkunum 7 inn á YouTube en mig langar til þess að klippa þetta betur saman. 

Eftir góða daga var sest niður í bjór og góðum mat í bænum Aranjuez. Ég held að það sé alveg víst að þetta er eitthvað sem mig langar til þess að gera næstu árin.

Ég setti inn nokkrar myndir úr ferðinni.