Þegar ég var staddur úti á Spáni í fallhlífastökkinu (sjá fyrri færslu) þá tók ég eftir því að strax á fyrsta degi voru allir búnir að “húkka sér saman” á Facebook (FB). Ég hef í nokkurn tíma haft illan bifur á öllu svona. Ég held að það hafi verið MySpace sem eyðilagi þetta fyrir mér - þvílíkt kaos!
En þegar ég áttaði mig á því að mig langaði til þess að halda sambandi við þennan hóp og til þess að vera alveg sannleikanum sannkvæmur þá var ég ekki að fara hringja í þau (og sennilega ekki einu sinni að fara að senda þeim tölvupóst). Ég ákvað því að leggja FB-hrokann minn til hliðar og skrá mig inn.
Og, verð að viðurkenna að FB er ekki svo galið eftir allt saman.
Til þess að gera langa sögu stutta er ég gjörsamlega fallinn. Og, verð að viðurkenna að FB er ekki svo galið eftir allt saman. Maður er nú farinn að gera allt þetta helsta; “adda vinum”, skrifa á veggi og áður en ég veit af verð ég farinn að senda sýndarbjóra! Reyndar held ég að það sé langt (ef einhvern tímann) í að ég fari að senda sýndarbjóra. Þegar ég hugsa um það þá er það sennilega sá þáttur sem pirrar mig mest.
Reyndar sé ég núna að þetta er frábær leið til þess að halda sambandi við fólk (og þá sérstaklega fólk sem maður hittir ekki á öllu jöfnu). Ég er t.d. búinn að finna týnda æskufélaga, bekkjarfélaga og aðra sem ég var búinn að missa af.
Það sem mér finnst hins vegar lang mest spennandi er FB-þróunarumhverfið sjálft. Ég hef nefnilega lengi gengið með hugmynd í maganum en hef einhvern veginn aldrei komið mér í að framkvæma hana vegna þess að það til þess að geta framkvæmt hana þarf ég að gera heil ósköp áður. Það magnaða er að FB eru þessi heilu ósköp; og ég get einbeitt mér að því að framkvæma hugmyndina sjálfa.
Það sem er líka spennandi við að þróa þetta á FB er fjöldi notenda. Það er hægt að koma hugmyndum í dreifingu á mjög skömmum tíma til mjög margra og ef mér tekst vel til ætti að vera hægt að hafa tekjur af þessu.
Planið er því að skoða FB-þróunarumhverfið betur. Ég er búinn að vera að forrita ákveðinn feril (upphaf viðskipta) í vinnunni upp á síðkastið. Til þess hef ég verið að nota Python og er gjörsamlega ástfanginn af því forritunarmáli. Það virkar eins og hugur manns. Hins vegar hef ég verið að velta því fyrir mér hvort það sé heppilegt sem FB-forritunarmál og er eiginlega kominn að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki vegna álags á FB-hugbúnað. Haskell er ekki með allt of góðan stuðning við vefforritun (og það tekur lengri tíma að koma sér inn í það en ég hef). Ég hef því verið að horfa til Erlang sem virðist vera kjörið í þessum aðstæðum.
Ég skrifa meira um þessar pælingar þegar þær eru komnar lengra á veg.