Af einhverri ástæðu er ég andvaka núna en það er mjög skrítið í ljósi þess að ég var í nuddi fyrr í dag og nuddarinn tók svo vel á mér að ég var við það að sofna um kvöldmatarleytið. Núna hins vegar er ég glaðvakandi.
Mér fannst því að ég gæti notað tímann og hent einni stuttri færslu hér inn (skammast mín fyrir að það séu rúmir 3 mánuðir liðnir frá síðustu færslu). Síðustu vikur hefur þó talsvert verið að stúdera Haskell með það að leiðarljósi að skrifa meira af þessari síðu í því. Núna í desember kemur út bókin Real World Haskell, útgefin af O’Reilly, sem hægt er að lesa ókeypis í heilu lagi á netinu. Ég er búinn að lesa megnið af henni og verð ég að hrósa bæði þessu framtaki og líka gæði bókarinnar. Loksins er ég farinn að setja hlutina í samhengi og strax eftir að ég var búinn að lesa hana tókst mér að búa til græju sem tekur CSV-skjal með nöfnum og heimilisföngum, flettir þeim upp á ja.is og skilar símanúmerinu til baka inn í nýja CSV-skrá. Fram að þeim tímapunkti gat ég eingöngu skrifað forrit sem voru svona u.þ.b. 2-5 línur.
Eftir að vera kominn með örlítið meira sjálfstraust ákvað ég að líta á HAppS á ný. Við gúglun (er hægt að nota þetta orð svona?) fann ég síðuna happstutorial.com sem er eins og lénið gefur til kynna leiðbeiningasíða sem fer skref fyrir skref með manni í gegnum HAppS. Á síðunni á þó eftir að klára þann hluta sem snýr að HAppS.State en það er sá hluti sem geymir gögnin. Mér til mikillar ánægju tók ég eftir því þegar ég setti leiðbeiningarnar upp á tölvunni minni voru þessir hlutar klárir og ég gat fræðst betur en nokkurn tíman áður um það hvernig maður geymir gögn. Ennfremur útskýra þessar leiðbeiningar hvernig maður getur notað HStringTemplate sem byggir á hönnun StringTemplate fyrir Java, C# og Python. Þessi síða hefur líka að geyma hagnýtar upplýsingar um forritun í HAppS.
Ég er því kominn vel af stað með það að flytja bloggið mitt úr venjulegri textaskrá yfir í dýnamíska útgáfu, skrifaða fyrir HAppS. Á næstu vikum mun ég skrifa um það sem ég læri og verður næsti póstur því um setustjórnun (session management) og hvernig hægt er að útfæra slíkt í Haskell.
Bloggið, Real World Haskell og HAppS
@code