Í fyrirsögninni er ég að vísa í vörðu í merkingunni Milestone. Loksins kom að því að þessi vefur er orðinn HAppS/Haskell-væddur. Áður var þessi vefur statískur en dýnamíkin byggði á öðrum þjónustum, s.s. Google Notebook. JavaScript var notað til þess að brúa bilið á milli þjónustanna og vefsíðunnar. Ástæðurnar fyrir þessu fyrirkomulagi voru 2.
- Ég hafði ekki áhuga á því að búa til heilt vefkerfi. Það hef ég gert einum of oft og nú á tímum er hægt að nýta sér parta frá öðrum og púsla þeim saman í sitt eigið kerfi.
- Ég hafði ekki næga þekkingu á Haskell til þess að geta búið til vefkerfi.
Þegar ég fór að skoða HAppS var mér tjáð að ekki væri heppilegt að byrja á þeim endanum. Eftir á að hyggja er ég hjartanlega sammála því að byrja einhvers staðar annars staðar. Því þrátt fyrir að hafa fengið þessa vísbendingu tók það mig um 3 tilraunir til þess að komast inn í Haskell-hugsunarháttinn.
Þegar beiðni um vefsíðu kemur inn tekur HAppS á móti beiðninni og áframsendir hana á rétta stýru (controller). Stýran hefur síðan samband við stöðuvélina, HAppS-State, og gerir annað hvort fyrirspurnir á henni eða breytingar. Að lokum eru gögnin (model) úr stöðuvélinni send fram í birtingarlagið (view) en þar tekur HStringTemplate við þeim og breytir í HTML.
Næstu skref eru að bæta við stuðningi fyrir tög, athugasemdir og TrackBack ásamt því að tengja eitthvert myndakerfi við bloggið en ég ætla aðeins að bíða með það þar sem ég ætla að einbeita mér að öðru verkefni fyrir Baldur bróður.