profile picture

Grein um rafmyntir sem minnist ekki einu orði á verð þeirra 🤔

Fyrsta rafmyntin (e. Cryptocurrency) leit dagsins ljós árið 2009. Bitcoin var lausn á vandamáli sem stærðfræðingar, hugbúnaðar- og vísindafólk hafði glímt við í áratugi. Á svipuðum tíma og fyrstu tölvurnar voru tengdar saman vöknuðu spurningar um hvort hægt væri að búa til rafrænar myntir. Ólíkt rafrænum upplýsingum, sem hægt er að miðla á milli ólíkra þáttakenda í tölvuneti með því að fjölfalda gögnin, er nauðsynlegt að ekki sé hægt að fjölfalda rafrænar myntir við millifærslu. Slík peningaprentun gerir myntirnar verðlausar. Tryggja þarf að raunverulegt eignarhald myntarinnar flytjist við millifærslu.

Rafmynt eða rafrænt skráð mynt

Engin hugbúnaðarlausn fannst á fjölföldunarvandamálinu (e. Double Spending Problem) svo rafrænar myntir urðu ekki að veruleika á þessum tíma. Bankar hófu hins vegar að nota tölvur til þess að halda utan um innstæður viðskiptavina sinna og komu þeim þannig á rafrænt form. Sérstök greiðslukerfi milli bankanna og seðlabankans sáu um að miðla upplýsingum um millifærslur á milli viðskiptavina bankanna en lokauppgjör fór fram á reikningum bankanna hjá seðlabankanum. Þrátt fyrir að slík greiðslukerfi hefðu mikið hagræði í för með sér þýddi fyrirkomulagið að miðlun upplýsinga annars vegar og uppgjör verðmætanna hins vegar fóru fram í mismunandi kerfum og á mismunandi tíma.

Þessi mismunur á flæði upplýsinga og uppgjöri veldur því að afar erfitt er að millifæra yfir landamæri og áhætta myndast þegar tengja á millfærslur við uppgjör annarra verðmæta. Lausnin hefur verið að fleiri fjármálafyrirtæki hafa stigið inn til þess að brúa landamæri og taka á sig áhættuna sem stafar af tímamuninum, gegn þóknun. Útkoman er flókið og dýrt net milliliða sem þurfa að tryggja að réttar upplýsingar flæði sín á milli áður en verðmætin geta fluttst frá kaupanda til seljanda. Til dæmis í tilfelli vörukaupa með kreditkorti á internetinu tekur ferlið daga eða vikur og kostnaður við uppgjörið hleypur á 1 - 10% af verðmæti vörunnar. Þetta er oft ósýnilegt fyrir kaupandann sem í mörgum tilfellum fær vöruna afhenta áður en seljandinn fær greitt og sér aðeins brot af kostnaðinum. Sársaukinn er hins vegar seljandanum mjög áþreifanlegur.

Fjölföldunarvandamál rafmynta leyst

Í stað lokaðrar og miðlægrar eignaskráningar mynta líkt og lýst er að framan, eru upplýsingum um millifærslur rafmynta dreift á opinn hátt til allra sem vilja taka þátt og eru tilbúnir að gangast undir notkunar- og samskiptareglur bálkakeðjunnar (e. Blockchain). Reglunum, sem ritaðar eru í hugbúnað, er lýðræðislega framfylgt af meirihluta þátttakenda og tryggja þær að allar millifærslur eru færðar í sömu röð hjá öllum þátttakendum. Þannig er öllum þátttakendum ljóst að mynt, sem þegar hefur verið millifærð af reikningi, er ekki hægt að millifæra aftur af þeim reikningi því hann er nú tómur. Með öðrum orðum tryggja reglurnar einkvæma röðun millifærslna, sem kemur í veg fyrir að hægt sé að fjölfalda rafmynt. Það er erfitt að leggja nægilega mikla áherslu á hve stór þessi breyting er og hvað hún hefur í för með sér en hér eru nokkrir eiginleikar sem mig langar til þess að draga fram.

Bálkakeðjur eru opnar og alþjóðlegar

Aðgangur að kerfinu er opinn öllum þeim sem vilja nota það til millifærslu rafmynta óháð landamærum. Ólíkt hefðbundnum greiðslukerfum, getur hver sem er búið til lausnir sem byggja á bálkakeðjum, sem lækkar aðgengishindranir frumkvöðla og flýtir framförum í fjártækni.

Bálkakeðjur geta haldið utan um fleira en rafmyntir

Rafmyntir eru grunnverðmæti bálkakeðja og nauðsynlegar til þess að tryggja að reglum þeirra sé framfylgt. Til viðbótar geta bálkakeðjur haldið utan um önnur verðmæti á borð við hefðbundnar myntir, skuldabréf og lán, hlutabréf, afleiður og fleira.

Bálkakeðjur eru forritanlegar

Hver sem er getur búið til forrit sem útvíkkar notkunarmöguleika bálkakeðjunnar. Forritið getur varslað verðmæti og gert upp viðskipti með ólíkar eignir án aðkomu þriðja aðila. Slíkt forrit getur ennfremur kallað í önnur forrit á bálkakeðjunni og þannig geta ólíkir aðilar starfað saman að því að veita þjónustu án þess að þurfa að gera með sér flókna viðskiptasamninga. Reglur samstarfsins eru ritaðar í forritin.

Bálkakeðjur minnka mótaðilaáhættu í viðskiptum

Þar sem upplýsingar og uppgjör gerast í sama kerfi á sama tíma, má segja að millifærsla rafmyntar sé á sama tíma uppgjör hennar. Ennfremur er tryggt að uppgjör ólíkra eigna milli ótengdra aðila fari fram án þess að hætta sé á að aðili viðskiptanna hafi sent mótaðila sínum kaupvirðið án þess að fá eignina afhenta.

Nýtt fjármálakerfi verður til

Ofangreindir eiginleikar hafa leitt til þess að nýtt, opið og dreift fjármálakerfi (e. Decentralized Finance) hefur sprottið upp samhliða því hefðbundna. Rafmagnsbílar, líkt og hefðbundnir bensínbílar, fara frá A til B en á alveg nýjan máta. Til dæmis er engin þörf á að kúpla vélinni frá hjólunum þegar bíllinn er kyrrstæður og hægt er að bremsa með því að hlaða rafmagni aftur inn á bílinn sem bæði nýtir orkuna betur og slítur ekki bremsuborða. Á sama hátt veitir þetta nýja fjármálakerfi sömu þjónustu og hið hefðbundna, á nýjan máta. Þessu til viðbótar er farið að glitta í nýja þjónustu sem ekki er hægt að veita með hefðbundnum hætti. Margt bendir til þess að þróun bensínbílsins sé að leiðarenda komin og rafmagnsbílar með sína nýju eiginleika séu framtíðin. Það sama má segja um fjármálakerfið og að mínu viti er verið að leggja grunninn að framtíðarinnviðum fjármálakerfisins.

Þrátt fyrir framangreind tækifæri eru líka áskoranir sem standa frammi fyrir þessum nýju innviðum. Hér verða tíundaðar nokkrar af þeim áskorunum sem mér eru hugleiknar nú árið 2022. Margt klárasta fólk heims vinnur nú í sameiningu að því að koma með lausnir og því er ég bjartsýnn á þessi vandamál verði leyst á næstu árum.

Bálkakeðjur virða ekki friðhelgi einkalífsins

Í núverandi mynd er komið í veg fyrir fjölföldun rafmynta og rafeigna (e. Tokens) með því að dreifa upplýsingum um allar millifærslur á opinn hátt. Slíkar millifærslur geyma upplýsingar um reikningsnúmer sendanda, reikningsnúmer móttakanda og upphæð. Þó ekki sé augljóst samband á milli handhafa rafmyntar og reikningsnúmers hans, getur slíkt samband orðið almenningsvitneskja, sem gerir alla millifærslusögu handhafans opinbera.

Bálkakeðjur skalast ekki

Allir þátttakendur bálkakeðjunnar framfylgja samskipta- og notkunarreglum með því að sannreyna hverja millifærslu fyrir sig, hver í sínu lagi. Afleiðingin er sú að bálkakeðjan er sérlega áreiðanleg, bæði hvað varðar öryggi rafmyntanna og uppitíma bálkakeðjunnar, en á kostnað fjölda þeirra færslna sem kerfið afkastar.

Bálkakeðjur krefast djúps skilnings á tækninni

Með nýrri tækni fylgja ný hugtök og nýjar aðferðir sem erfitt getur verið að tileinka sér án djúps skilnings á undirliggjandi tækni. Slík krafa er hár þröskuldur fyrir nýja notendur og hamlar útbreiðslu tækninnar.

Áskoranir sem þessar eru áþekkar áskorunum sem við stóðum frammi fyrir í upphafi internet-væðingarinnar, þar sem til dæmis djúp þekking á TCP/IP, DNS og öðrum samskiptareglum var forsenda þess að geta tengst og notað internetið. Í dag er óþarfi að hafa slíkan skilning enda er búið að einfalda allan aðgang þannig að nú geta 5 ára börn tekið upp snjallsíma og spilað leiki á internetinu. Á sama hátt er líklegt að sérstök þekking á bálkakeðjum verði óþörf. Aðgengi að fjármálaþjónstu verður einfaldlega smáforrit í snjallsíma sem pakkar þjónustunni í notendavænar umbúðir.

Mig langar sérstaklega að benda áhugafólki um stærðfræði á að miklar vonir eru bundnar við “zero-knowledge proofs” í tengslum við þær áskoranir sem lúta að friðhelgi einkalífsins og skalanleika kerfanna. Þær hafa þá eiginleika að geta þjappað löngum útreikningi í stutta sönnun og slík sönnun lekur engum upplýsingum um útreikningana. Þessa eiginleika má nýta þannig að í stað þess að allir þátttakendur sannreyni allar millifærslur, getur einn þátttakandi sannreynt dulkóðaðar millifærslur og sannað fyrir öðrum þátttakendum að útkoman sé rétt, og þannig aukið hagkvæmni kerfisins og komið í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar eins og reikningsnúmer og upphæðir leki út.

Monerium sameinar bálkakeðjur og venjulegar myntir

Monerium er íslenskt fjártæknifyrirtæki, stofnað árið 2017, og er nú með 15 starfsmenn í 7 löndum. Fyrirtækið er fyrsta íslenska rafeyrisfyrirtækið (e. E-Money Institution) og jafnframt fyrsta rafeyrisfyrirtækið í heiminum sem notar bálkakeðjur í stað hefðbundnari greiðslukerfa. Rafeyrisfyrirtæki eru eftirlitsskyldar fjármálastofnanir sem gera handhöfum sínum kleift að geyma og nota hefðbundnar myntir á borð við íslensku krónuna, dollara og evrur á rafrænu formi. Hefðbundin rafeyrisfyrirtæki á borð við Revolut geyma upplýsingar um viðskiptavini sína og hver á hvað í gagnagrunni og tengjast öðrum fjármálastofnunum í gegnum lokuð greiðslukerfi en sérstaða Monerium er að geyma niðurbrotið á bálkakeðjum sem rafeign sem viðskiptavinir hafa aðgang að í gegnum rafveskin sín. Slík veski eru alfarið í eigu og undir stjórn handhafans, sem getur millifært og stundað viðskipti allan sólarhringinn, alla daga ársins, enda eru bálkakeðjur aðengilegar öllum stundum líkt og internetið sjálft.

Á síðasta ári kynnti Monerium byltingarkennda lausn þar sem viðskiptavinir Monerium geta fengið hefðbundinn greiðslureikning, auðkenndan með IBAN númeri, sem er tengdur beint við rafveskið. Það þýðir að hægt er að taka á móti og senda greiðslur í gegnum hefðbundin greiðslukerfi, ásamt því auðvitað að geta millifært og stundað viðskipti á bálkakeðjunni. Með þeim hætti tókst okkur að samþætta og brúa hið hefðbundna fjármálakerfi og hið nýja, því þó það sé okkar einlæga trú að fjármálaþjónusta framtíðarinnar verði veitt á innviðum bálkakeðja þá er nauðsynlegt að lækka þröskuldinn við notkun þeirra.

Það er mín von að lítill neisti hafi kveiknað hjá hluta þeirra lesenda sem komust hingað í lestrinum. Ég þekki það nefnilega af persónulegri reynslu að slíkur forvitnisneisti er oft upphafið af gefandi ferðalagi, fullu af tækifærum og verðugum áskorunum. Slíkt hlítur að að skipta meira máli en verðið á Bitcoin, eða hvað?

Gísli Kristjánsson er meðstofnandi og tæknistjóri Monerium. Hann er stærðfræðingur að mennt og fyrrum forseti Stiguls.

@crypto